|
Sendiboði Laódíkeualdarinnar
William Marrion Branham

Opinberunarbókin 3:14-22:
"Og engli safnaðarins í Laódíkeu
skalt þú rita: Þetta segir hann, sem er amen, votturinn trúi og
sanni, upphaf sköpunar Guðs: Ég þekki verkin þín, að þú ert
hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur. En
af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég
skyrpa þér út úr munni mínum. Þú segir: Ég er ríkur og orðinn
auðugur og þarfnast einskis. Og þú veist ekki að þú ert
vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn. Ég ræð
þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú
verðir auðugur og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi
komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl til að smyrja með
augu þín, til þess að þú verðir sjáandi. Alla þá, sem ég elska,
tyfta ég og aga. Ver því heilhuga og ger iðrun. Sjá, ég stend við
dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum,
þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann
með mér. Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti
mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í
hásæti hans. Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir
söfnuðunum."
Sendiboðinn
Eftir William Marrion Branham
Ég efast um að nokkur öld (Ákveðið
tímaskeið, ekki endilega hundrað ár.) hafi í sannleika þekkt þann
sendiboða, sem Guð hafði sent til hennar, nema fyrsta öldin, þegar
Páll var sendiboðinn. Og jafnvel á þeirri öld voru margir, sem ekki
báru kennsl á hann, að hann var sá sem hann var.
Öldin, sem við
lifum á, mun verða mjög stutt. Atburðirnir munu gerast mjög hratt.
Sendiboðinn til Laódíkeualdarinnar hlýtur því að vera hér núna.
Það getur samt verið að við þekkjum hann ekki enn. Það hlýtur
samt að koma að því að hann verði þekktur. Ég get sannað það,
af því að við höfum ritningagrein, sem lýsir þjónustu hans.
Í
fyrsta lagi: Þessi sendiboði mun vera spámaður. Hann mun hafa
spámannlega þjónustu. Hún mun vera staðfastlega byggð á Orðinu,
af því að þegar hann spáir eða sér sýnir mun það alltaf verða
byggt á orðinu, og það mun ALLTAF verða svo sem hann segir. Hann
mun verða sannaður sem spámaður vegna nákæmni sinnar. Sönnun
þess er að finna í Opinberunarbókinni 10:7: "En þegar kemur
að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma
leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum,
spámönnunum." Þessi persóna, sem hér kallast "engill",
er ekki himnesk vera. Sjötta engilinn sem básúnar, og er himnesk vera,
er að finna í Opinberunarbókinni 9:13, og hinn sjöundi af líkum
uppruna er í Opinberunarbókinni 11:15. Þessi hér, í
Opinberunarbókinni 10:7, er sendiboðinn til sjöundu aldarinnar, og
hann er maður. Hann á að flytja skilaboð frá Guði og í þjónustu
hans mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað
þjónum sínum, spámönnunum. Guð mun koma fram við þennan
sendiboða sem spámann, AF ÞVÍ AÐ HANN ER SPÁMAÐUR. Páll var
slíkur á fyrstu öldinni, og síðasta öldin á líka spámann. Amos
3:6-7: "Verður lúðurinn svo þeyttur innan borgar, að fólkið
flykkist ekki saman í angist? Vill nokkur ógæfa svo til í borginni,
að Drottinn sé ekki valdur að henni. Nei, Drottinn Guð gerir ekkert
án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum,
ráðsályktun sína." Það var á endatímatimabili að hinar
sjö þrumur Jesú þrumuðu. Opinberunarbókin 10:3-4: "Hann
kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði
kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum. Og er þrumurnar sjö
höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd
af himni, sem sagði: 'Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö
töluðu, og rita það ekki.'"
Enginn veit hvað þrumurnar sögðu.
En við þurfum að vita það. Við þörfnumst spámanns, til að fá
opinberunina, af því að Guð hefur enga aðra leið til að koma til
okkar opinberun Ritningarinnar en í gegnum spámann. Orðið kom alltaf
til spámanns, og mun alltaf gera það. Að þetta sé lögmál Guðs
sjáum við jafnvel á snöggri yfirferð gegnum Ritninguna. Hinn
óumbreytanlegi Guð, hvers vegir eru óumbreytanlegir, sendi alltaf
spámann á hverri öld, þegar fólkið hafði fjarlægst lögmál
Guðs. Þegar bæði guðfræðingarnir og lýðurinn höfðu yfirgefið
Orðið, sendi Guð alltaf þjón sinn til þess fólks (en hann var
aðskilinn frá guðfræðingunum) til að leiðrétta villukenningar og
leiða fólkið aftur til Guðs. Við sjáum því að sendiboði
sjöundu aldarinnar mun koma, og hann er spámaður. Við sjáum þennan
sendiboða ekki bara í Opinberunarbókinni 10:7. Við komumst að því,
að Orðið talar um að Elía komi áður en Jesús snýr aftur.
Í Matteusi 17:10: " Lærisveinarnir spurðu hann: "Hví segja
fræðimennirnir að Elía eigi fyrst að koma?" Hann svaraði:
"Víst kemur Elía og færir allt í lag."" Áður en Drottinn
kemur, verður Elía að koma og lagfæra kirkjuna. Þetta er það sem
Malakí 4:5 segir: "Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en
hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. Hann mun sætta feður
við sonu og sonu við feður, til þess að ég komi ekki og ljósti
landið banni." Það er enginn efi á því, að Elía verður að
snúa aftur, áður en endurkoma Jesú á sér stað. Hann hefur alveg
sérstakt verk að vinna. Það verk er sá hluti af Malakí 4:6, sem
segir að hann sætti sonu við feður.
Þjónusta Jóhannesar skírara
var samkvæmt Lúkasi 1:17: "Og hann mun ganga fyrir honum í anda
og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum
til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð." Í
þjónustu Jóhannesar var hjörtum feðra snúið til barna. Við vitum
að Jesús sagði það. En það stendur ekki að hjörtum barna hafi
verið snúið til feðra. Það á ennþá eftir að eiga sér stað.
Hjörtum barnanna á síðustu tímum verður snúið aftur til
hvítasunnufeðranna. Jóhannes gerði feðurna reiðubúna, til að
Jesú gæti boðið þá velkomna. Þessi spámaður, sem andi Elía
verður yfir, mun gera börnin reiðubúin til að bjóða Jesú
velkominn. Jesús talaði um Jóhannes skírara í Matteusi 17:12:
"En ég segi yður: Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann
ekki, heldur gjörðu honum allt sem þeir vildu."
Ástæða þess
að hann kallaði Jóhannes Elía, er sú, að sami andi og var yfir
Elía, hafði komið yfir Jóhannes, alveg eins og sá andi kom yfir
Elísa eftir ríki Akabs. Þessi sami andi mun koma yfir annan mann
rétt áður en Jesús kemur aftur. Hann mun vera spámaður. Hann
verður sannaður sem slíkur af Guði. Þar sem Jesús verður hér
ekki í holdi, til að sanna hann, þá verður það gert af Heilögum
Anda, þannig að þjónustu spámannsins munu fylgja margar
undursamlegar birtingar. Sem spámanns, mun sérhver opinberun hans
verða staðfest, því að opinberun mun eiga sér stað.
Dýrðleg kraftaverk munu gerast fyrir tilskipanir hans, talaðar í
trú. Síðan munu skilaboðin koma fram, sem Guð hefur gefið honum í
Orðinu, að snúa fólki aftur til Orðsins og kraftar Guðs. Sumir
munu hlusta, en meirihlutinn mun vera samkvæmur sjálfum sér og hafna
honum. Þar sem þessi sendiboði Opinberunarbókarinnar 10:7 verður
sá sami og í Malakí 4:5-6, þá mun hann eðlilega líkjast bæði
Elía og Jóhannesi. Báðir þessir menn voru aðskildir frá hinum
trúarlegu skólum síns dags. Báðir voru menn óbyggðanna. Báðir
unnu aðeins þegar þeir höfðu: "Svo segir Drottinn", beint
frá Guði fyrir opinberun. Báðir börðust gegn trúarhreyfingum og
leiðtogum dagsins. En ekki bara það, þeir fóru líka gegn öllum
þeim, sem voru siðspilltir og reyndu að spilla öðrum. Og takið
eftir að báðir spáðu mikið gegn ósiðsömum konum og vegum
þeirra. Elía hrópaði gegn Jesebel og Jóhannes skammaði Herodías,
konu Filippusar. Þótt hann verði ekki vinsæll, þá verður hann
sannaður af Guði. Eins og Jesús staðfesti Jóhannes og Heilagur Andi
staðfesti Jesú, getum við búist við að þessi maður verði
staðfestur fyrir það að Andinn vinni kraftaverk gegnum hann með
einstökum hætti. Og þegar Jesús snýr aftur mun Hann viðurkenna
hann, eins og hann viðurkenndi Jóhannes. Jóhannes vitnaði um að
Jesús væri að koma, eins mun þessi maður vitna eins og Jóhannes um
að Jesús sé að koma og endurkoma Krists mun sanna að þessi maður
var sannarlega fyrirrennari seinni komu hans. Þetta verður lokasönnun
þess að þetta sé sannarlega spámaður Malakí 4:5-6, af því að
endir tímabils heiðingjanna, verður sá, að Jesús sjálfur birtist.
Þá verður allt um seinan fyrir þá sem höfnuðu honum.
Til að
útskýra betur kynningu okkar á þessum spámanni síðustu tíma,
þá skulum við taka sérstaklega eftir því að spámaðurinn í
Matteusi 11:12, var Jóhannes skírari, sem var sá sem talað var um í
Malakí 3:1: "Sjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða
veginn fyrir mér. Og bráðlega mun hann koma til musteris sins, sá
Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans, sá er þér þráið.
Sjá, hann kemur segir Drottinn allsherjar." Matteus 11:1-12:
"Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf,
hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra. Jóhannes
heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með
lærisveinum sínum og spurði: "Ert þú sá, sem koma skal, eða
eigum vér að vænta annars?" Jesús svaraði þeim: "Farið
og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið. Blindir
fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir
rísa upp, og fátækum er boðað fagnaðarerindi. Og sæll er sá, sem
hneykslast ekki á mér." Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að
tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá
í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá?
Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga.
Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og
það meira en spámann. Hann er sá, sem um er ritað: "Sjá, ég
sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir
þér." Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem
meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum
meiri." Þetta hefur þegar gerst. Það er búið að eiga sér
stað. En takið nú eftir í Malakí 4:1-6: "Því sjá, dagurinn
kemur, brennandi sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir er
guðleysi fremja, munu þá vera sem hálmleggir, og dagurinn sem kemur,
mun kveikja í þeim segir Drottinn allsherjar svo að hvorki verði
eftir af þeim rót né kvistur. En yfir yður, sem óttist nafn mitt,
mun réttlætissólin upp renna, með græðslu undir vængjum sínum,
og þér munuð út koma og leika yður eins og kálfar, sem út er
hleypt úr stíu, og þér munuð sundur troða hina óguðlegu, því
að þeir munu verða aska undir iljum yðar á þeim degi er ég hefst
handa segir Drottinn allsherjar. Munið eftir lögmáli Móse þjóns
míns, þess er ég á Hóreb fól setninga og ákvæði fyrir allan
Ísrael. Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og
ógurlegi dagur Drottins kemur. Hann mun sætta feður við sonu og sonu
við feður, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni."
Sjáið þið til, strax eftir komu þessa Elía, mun jörðin hreinsast
með eldi og hinir óguðlegu verða að ösku. Þetta gerðist
auðvitað ekki á dögum Jóhannesar (Elía síns tíma.) Andi Guðs,
sem spáði um komu sendiboðans í Malakí 3:1 (Jóhannesar) var
aðeins að ítreka hina spámannlegu yfirlýsingu Jesaja 40:3: "Heyr,
kallað er: "Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið
Guði vorum veg í óbyggðinni."" Jóhannes var fyrir Heilagan Anda,
bæði rödd Jesaja og Malakí, í Matteusi 3:3: "Jóhannes er sá
sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni: Rödd hrópanda í eyðimörk:
Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans."
Við sjáum
því út frá Ritningunni að spámaðurinn í 3. kafla Malakí, sem
var Jóhannes, var ekki spámaður 4. kafla Malakí, þótt að
Jóhannes og þessi spámaður síðustu tíma hefðu yfir sér sama
anda og var yfir Elía. Þessi sendiboði í 4. kafla Malakí og 10.
kafla Opinberunarbókarinnar, mun gera tvennt. Í fyrsta lagi mun hann,
samkvæmt 4. kafla Malakí snúa hjörtum barna til feðra. Í öðru
lagi mun hann opinbera leyndardóm þrumanna sjö í tíunda kafla
Opinberunarbókarinnar, sem er leyndardómurinn, sem er innifalinn í
innsiglunum sjö. Það verður þessi Guðlega opinberaði
leyndardómssannleikur, sem bókstaflega snýr hjörtum barna til feðra.
Nákvæmlega á þann hátt.
En íhugið einnig þetta. Þessi
spámannlegi sendiboði mun líkjast Elía og Jóhannesi í eðli sínu
og hegðun. Fólkið á hans dögum verður líkt fólkinu á tímum
Akabs og Jóhannesar. Og þar sem aðeins hjörtum barnanna verður
snúið, þá eru það aðeins börnin sem munu hlusta. Á dögum Akabs
fundust aðeins sjö þúsund sannir ísraelsmenn. Á dögum Jóhannesar
voru þeir aðeins örfáir. Fjöldinn var fastur í viðurstyggð
skurðgoðadýrkunar á báðum þessum öldum.
Ég vil bera saman á
einn veg í viðbót, hinn spámannlega sendiboða Laódíkeualdarinnar
og Jóhannes, spámannlega sendiboðann, sem var fyrirrennari fyrri
komu Jesú Krists. Fólkið á tímum Jóhannesar hélt að hann væri
Messías. Jóhannes 1:19-20: "Þessi er vitnisburður Jóhannesar,
þegar gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að
spyrja hann: "Hver ert þú?" Hann svaraði ótvírætt og
játaði: "Ekki er ég Kristur." Þessi sendiboði síðustu
tíma mun hafa slíkt vald frammi fyrir Drottni að sumir munu halda að
hann sé Drottinn Jesús. (Það verður andi í heiminum á
endatímunum, sem fær þá til að trúa þessu. Matteus 24:23-26:
"Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir
munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina
útvöldu, ef orðið gæti. Sjá, ég hefi sagt yður það fyrir. Ef
þeir segja við yður: "Sjá, hann er í óbyggðum, þá farið
ekki þangað. Ef þeir segja: "Sjá, hann er í leynum, þá
trúið því ekki.") En ekki trúa því. Hann er ekki Jesús
Kristur. Hann er ekki sonur Guðs. HANN ER EINN AF BRÆÐRUNUM,
SPÁMAÐUR, SENDIBOÐI, ÞJÓNN GUÐS. Hann þarfnast ekki meiri
heiðurs en Jóhannes fékk, er hann var röddin sem hrópaði: "Ég
er ekki hann, EN HANN KEMUR Á EFTIR MÉR."
Áður en við ljúkum
þessum hluta um sendiboða Laódíkeualdarinnar, verðum við að
ígrunda tvennt vandlega. Í fyrsta lagi, þessi öld mun fá EINN
spámannlegan sendiboða. Opinberunarbókin 10:7 segir: "Og hann (eintala)
fer að básúna." Það hefur aldrei gerst á neinni öld, að
Guð hafi gefið tvo stóra spámenn á sama tíma. Hann gaf Enok (einan)
Hann gaf Nóa (einan). Hann gaf Móse. (Hann einn hafði orðið, þótt
að aðrir spáðu.) Jóhannes skírari kom einn. Á þessum síðustu
tímum mun koma SPÁMAÐUR. (Ekki spákona, þótt að á þessari öld
þykist fleiri konur hafa orð Guðs en karlmenn.) Og orðið, sem ekki
verður fellt úr gildi, segir að hann, spámaðurinn, muni opinbera
lýð síðustu tíma leyndardómana, og snúa hjörtum barnanna til
feðranna.
Þeir eru til, sem segja að lýður Guðs muni sameinast
gegnum sameiginlega opinberun. Ég mótmæli þessari staðhæfingu í
ljósi tíunda kafla Opinberunarbókarinnar. Ég neita því ekki að
fólk muni spá á þessari síðustu öld og þjónusta þeirra getur
og mun vera rétt. Ég neita ekki að það muni verða til spámenn
eins og á dögum Páls, þegar Agabus spáði hungursneyð. Ég
viðurkenni að þetta sé svo. EN ÉG NEITA ÞVÍ MEÐ SÖNNUN HINS
ÓBRIGÐULA ORÐS AÐ ÞAÐ SÉ FLEIRI EN EINN STÓR SPÁMANNLEGUR
SENDIBOÐI, SEM OPINBERI LEYNDARDÓMANA, SEM INNIFALDIR ERU Í ORÐINU
OG HEFUR ÞÁ ÞJÓNUSTU AÐ SNÚA HJARTA BARNA TIL FEÐRA. "Svo
segir Drottinn" í sínu óbrigðula orði. Það stendur fast og
mun standa og sanna sig. Það er einn sendiboði til þessarar aldar.
Við vitum og byggjum það á þekkingu á mannlegri hegðun, að þar
sem margir koma saman, verða mismunandi skoðanir á minniháttar
þáttum kenninga, sem hver og einn heldur sér við. Hver mun þá hafa
það Orð, sem gefið verður þessari öld, og ekki mun bregðast, af
því að á þessari öld mun hin sanna brúður Orðsins koma fram.
Það þýðir að Orðið verður aftur eins og það var gefið í
fullkomnun, og gjörskilið á dögum Páls. Ég skal segja ykkur hver
mun hafa það. Það verður spámaður, sem Guð mun staðfesta
jafnmikið og jafnvel betur en nokkurn annan, allt frá Enok og til
þessa dags, af því að þjónusta hans mun hafa toppstein
spámannlegrar þjónustu og Guð mun sýna sig máttugan. Hann mun
ekki þurfa að tala fyrir sjálfan sig. Guð mun tala fyrir hann gegnum
rödd tákna. Amen.
Annað, sem við verðum að muna, er að við
upphaf kirkjualdanna kom andkristsandinn fram, sem og Heilagur Andi,
Hann, sem er blessaður um aldir. 1. Jóhannesarbréf 4:1: "Þér
elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort
þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í
heiminn." Tókuð þið eftir þessu? Andkristsandinn er tengdur
falsspámönnum. Í upphafi kirkjualdanna komu fram falsspámenn og
við endi hennar munu koma fram falsspámenn. Auðvitað mun koma fram
RAUNVERULEGUR FALSSPÁMAÐUR í þeim skilningi sem talað er um í
Opinberunarbókinni. En áður en hann opinberast munu margir
falsspámenn koma fram. Matteus 24:23-26: " Ef einhver segir þá við
yður: "Hér er Kristur, eða þar." þá trúið því ekki.
Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gera
stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef
orðið gæti. Sjá, ég hef sagt yður það fyrir. Ef þeir segja við
yður: "Sjá, hann er í óbyggðum," þá farið ekki
þangað. Ef þeir segja: "Sjá, hann er í leynum," þá
trúið því ekki." Þessum falsspámönnum er lýst fyrir okkur
í ýmsum ritningastöðum, t.d. í eftirfarandi versum: 2. Pétursbréf
2:1-2: "En falsspámenn komu einnig upp meðal lýðsins. Eins munu
falskennendur líka verða á meðal yðar, er smeygja munu inn
háskalegum villukenningum og jafnvel afneita herra sínum, sem keypti
þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun. Margir munu fylgja
ólifnaði þeirra og sakir þeirra mun vegi sannleikans verða
hallmælt." 2. Tímóteusarbréf 4:3-4: "Því að þann tíma
mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa
þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra
það, sem kitlar eyrun. Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá
sannleikanum og hverfa að ævintýrum." 1. Tímóteusarbréf 4:1:
"Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af
trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda." Þú
munt sjá það, að í öllum tilvikum er falsspámaðurinn fyrir utan
Orðið. Eins og við höfum sýnt fram á að "andkristur"
þýði "gegn orðinu," eins munu þessir falsspámenn
rangsnúa Orðinu og gefa því merkingu, sem passar við þeirra
djöfullegu áætlanir. Hefur þú tekið eftir því, að fólk sem
leiðir aðra afvega, bindur það við sig með ótta? Þeir segja, að
ef fólk geri ekki það sem það segi, eða yfirgefi þá, þá muni
eyðilegging koma yfir það. Þeir eru falsspámenn, af því að
sannur spámaður leiðir alltaf til Orðsins og bindur fólkið við
Drottin Jesú Krist og hann mun ekki segja fólkinu að óttast sig,
heldur það sem standi í Orðinu. Takið eftir að þetta fólk
sækist eftir peningum, alveg eins og Júdas. Það fær þig til að
selja allar eigur þínar og gefa þær sér og sínum áætlunum. Þeir
sem hafa gjafir, munu nota gjöf, sem hefur villu í sér og biðja
síðan um peninga og hunsa Orð Guðs og segja að þetta sé frá
Guði. Og fólkið mun fylgja þeim og umbera þá og styðja og trúa
þeim, án þess að vita að það sé verið að leiða það á
helslóðir.
Já, landið er fullt af eftirhermum. Á síðustu tímum
mun verða reynt að herma eftir þessum spámannlega sendiboða. Hinir
sjö synir Skeva, reyndu að herma eftir Páli. Símon töframaður
reyndi að herma eftir Pétri. Eftirhermur þeirra munu vera holdlegar.
Þeir munu ekki geta gert sömu verk og hinn sanni spámaður. Þegar
hann lýsir því yfir að vakningunni sé lokið, munu þeir fara um og
segjast hafa mikla opinberun um að það sem fólkið hafi sé alveg
rétt og að Guð muni gera undursamlega hluti meðal lýðs síns. Og
fólkið mun falla fyrir þessu. Þessir sömu falsspámenn munu halda
því fram að sendiboði síðustu tíma sé ekki guðfræðingur og
þess vegna ættu menn ekki að hlýða á hann. Þeir munu ekki geta
gert þau verk sem þessi sendiboði gerir. Þeir munu ekki verða
sannaðir af Guði, eins og þessi sendiboði verður, en þeir munu
vara fólkið við að trúa því sem hann segir og segja að kenningar
hans séu rangar. Þeir eru sannir synir feðra sinna, faríseanna, sem
voru af djöflinum, af því að þeir héldu því fram að það sem
Jóhannes og Jesús kenndu væri rangt. Af hverju snúast þessir
falsspámenn gegn hinum sanna spámanni og reyna að gera kenningar hans
ótrúverðugar? Af því að þeir eru samkvæmir sjálfum sér, eins
og feður þeirra, sem stóðu gegn Míka spámanni á tímum Akabs.
Þeir voru fjögur hundruð og voru allir sammála. Þeir sögðu allir
það sama og blekktu fólkið. En einn spámaður, AÐEINS EINN, hafði
rétt fyrir sér og allir hinir höfðu rangt fyrir sér, af því að
Guð hafði gefið aðeins einum opinberunina.
Varist falsspámenn,
því þeir eru sem hungraðir úlfar. Ef þú efast enn, skaltu biðja
Guð að fylla þig af sínum Heilaga Anda og leiðbeina þér, af því
að það er ekki hægt að afvegaleiða hina útvöldu. Skildir þú
það? Það er ekki til sá maður að hann gæti blekkti þig. Páll
hefði ekki getað blekkt neinn útvalinn, hefði hann haft rangt fyrir
sér. Og á Efesusöldinni var ekki hægt að blekkja hina útvöldu af
því að þeir prófuðu falsspámenn og falskennendur og komust að
því að þeir voru lygarar og hentu þeim út. Hallelúja! Sauðir
Hans heyra raust Hans og þeir fylgja HONUM. Amen. Ég trúi því.
Birna Einarsdóttir þýddi.
Síðasta
viðvörun Andans.
Opinberunarbókin 3:22:
"Hver sem eyra hefur,
hann heyri hvað Andinn segir söfnuðunum." Þetta er síðasta
viðvörunin. Engin önnur verður gefin. Það er búið að byggja
konungssalinn. Það er búið að leggja undirstöðusteinana tólf.
Það er búið að leggja hin gulli búnu stræti. Hún stendur eins og
pýramídi, fögur og dýrðleg. Hinar himnesku verur, sem hafa búið
hana, horfa á hana með öndina í hálsinum, af því að hún glitrar
og skín í ójarðneskri dýrð. Öll fegurð hennar segir sögu
undranáðar Guðs og kærleika Jesú Krists. Hún er borg búin til
fyrir lýð sem er reiðubúinn. Hún bíður aðeins íbúa sinna. Samt
er þetta síðasta kallið. Andinn mun ekki tala á annarri öld.
Öldunum er lokið. En lof sé Guði, þá er öldunum ekki enn lokið
á þessari stundu. Hann er enn að kalla. Og kall hans nær ekki
aðeins til andlegra eyrna manna, heldur er enn á ný spámaður í
landinu. Enn á ný mun Guð opinbera sannleika, eins og hann gerði í
gegnum Pál.
Á dögum sjöunda sendiboðans, á dögum
Laódíkeualdarinnar, mun Guð opinbera leyndardóma Guðs, á sama
hátt og þeir voru opinberaðir Páli. Hann mun tala, og þeir sem taka
við þessum spámanni í hans eigin nafni, munu hafa hag af þjónustu
hans. Og þeir sem hlýða á hann munu verða blessaðir og verða
hluti af brúður þess dags, eins og sagt er í Opinberunarbókinni
22:17: "Og andinn og brúðurin segja: 'Kom þú."'
Fræið, sem féll í jörðina í Níkeu verður að snúa aftur til
hins upprunalega fræs. Lof sé Guði að eilífu. Já, hlustið á hinn
staðfesta spámann Guðs, sem birtist á síðustu öldinni. Það sem
hann segir frá Guði, mun brúðurin einnig segja. Andinn og
spámaðurinn og brúðurin munu segja það sama, og það sem þau
segja hefur þegar verið sagt í Orðinu. Þau segja það núna:
"Komið út úr henni og aðskiljið yður." Kallið hefur
gengið út. Hve lengi mun röddin hrópa? Við vitum það ekki, en
við vitum að það mun ekki verða lengi, af því að þetta er
síðasta öldin. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri hvað Andinn
segir söfnuðunum. Andinn hefur talað. Sólin er um það bil að
setjast og hverfa inn í eilífðina fyrir kirkjualdirnar. Þá verður
um seinan að koma. En ef Guð hefur verið að snerta við þér við
lestur þessa rits, mættir þú þá iðrast og snúa þér til Hans,
til að Andi Hans mætti gefa þér eilíft líf.
|