Boðskapur spámannsins

Kvöld eitt, er ég var að leita Drottins, sagði Heilagur Andi mér að taka upp penna minn og rita. Um leið og ég tók upp pennann til að rita, gaf Guðs Andi mér skilaboð til kirkjunnar. Ég vil gefa þér þessi skilaboð. Þau eru um Orðið og brúðina.

Hér er það sem ég er að reyna að segja við ykkur. Lögmál tímgunar er að hver kynstofn framleiðir eftir sínu kyni, jafnvel samkvæmt 1. Mósebók 1:11."Guð sagði: "Láti jörðin af sér spretta græn grös, sáðjurtir og aldintré, sem hvert beri ávöxt eftir sinni tegund, með sæði á jörðinni." Og það varð svo." Það líf, sem var í sæðinu, kom fram í plöntunni og síðan í ávextinum. Sama lögmál á við um kirkjuna í dag. Það sæði, sem grundvallaði kirkjuna, mun koma fram og verða eins og upprunalega sæðið, af því að það er sama sæðið. Á síðustu tímum mun hin sanna Brúðarkirkja (Sæði Krists.) koma alla leið að toppsteininum, og hún mun verða ofurkirkja, ofurkynslóð, þegar hún þrengir sér nær Guði. Fólkið, sem er hluti af brúðinni, mun verða svo líkt Honum, að það verður jafnvel í Hans mynd. Þetta verður til að það mætti sameinast Honum. Hann og hún eitt. Það verður birting Orðs lifandi Guðs. Kirkjudeildir geta ekki framleitt þetta (rangt sæði). Þær munu framleiða kreddur og hefðir, og blanda þær orðinu. Þetta framleiðir kynblending.

Fyrsti sonurinn (Adam) var hið talaða sæðisorð Guðs. Honum var fengin brúður, til að Hann gæti margfaldast. Til þess var brúðurin gefin, að hann mætti margfaldast, til að búa til annan son Guðs. En hún féll. Hún féll gegnum kynblöndun. Hún olli dauða hans.

Öðrum syninum, (Jesú), sem var einnig hið talaða sæðisorð Guðs, var gefin brúður eins og Adam. En áður en hann gæti gifst henni, hafði hún líka fallið. Henni, eins og konu Adams, var fengin sú prófraun, hvort hún myndi trúa orði Guðs og lifa, eða efast um orðið og deyja. Hún efaðist. Hún yfirgaf orðið. Hún dó.

Í litlum hópi hins sanna sæðis orðsins, mun Guð kynna Krist fyrir elskaðri brúði. Hún er meyja orðs hans. Hún er meyja, af því að hún þekkir ekki neinar kreddur gerðar af mönnum eða hefðir. Gegnum og fyrir meðlimi brúðarinnar mun ganga í uppfyllingu allt það sem Guð lofaði að yrði sýnilegt í meyjunni.

Loforðið kom til Maríu meyjar. En það loforð var Hann sjálfur, sem myndi opinberast. Guð opinberaðist. Hann starfaði sjálfur á þeim tíma og uppfyllti eigið loforð í meyjunni. Það var engill sem færði skilaboðin. En skilaboð engilsins var Orð Guðs, Jesaja 9:6. Hann uppfyllti á þeim tíma allt sem ritað hafði verið um Hann af því að hún tók við Orði Hans til sín.

Meðlimir brúðarinnar munu elska Hann, og þeir munu hafa möguleika, af því að Hann er höfuð þeirra, og Honum er gefið allt vald. Þeir eru undir Hann gefnir, eins og líkamshlutar okkar eru undirgefnir höfði okkar.

Takið eftir samhljóman Föðurins og Sonarins. Jesús gerði ekkert, fyrr en Faðirinn var búinn að sýna Honum það. Jóhannes 5:19. Þessi samhljóman á nú að ríkja milli brúðgumans og brúðarinnar. Hann sýnir henni orð lífsins. Hún tekur við því. Hún efast aldrei um það. Þess vegna getur ekkert gert henni mein, ekki einu sinni dauðinn. Af því að, ef sæðinu er sáð, mun vatn reisa það upp á ný. Hér er leyndardómur þessa. Orðið er í brúðurinni.(Eins og það var í Maríu.) Brúðurin hefur huga Krists, af því að hún veit hvað gera skal með Orðið. Hún framkvæmir skipanir Orðsins í Hans nafni, af því að hún hefur: "Svo segir Drottinn Guð." Þá lífgar Andinn orðið, og það verður svo. Eins og sæði sem er sáð og vökvað, gefur það af sér fulla uppskeru, og þjónar tilgangi sínum.

Þeir, sem eru í brúðinni gera aðeins vilja Hans. Enginn getur fengið þá til neins annars. Þeir hafa "svo segir Drottinn" eða þeir halda að sér höndum. Þeir vita að Guð verður að vera í þeim, til að vinna verkið. Hann mun uppfylla sín eigin orð. Hann uppfyllti ekki alla áætlun sína í hinni jarðnesku þjónustu sinni, svo að nú vinnur Hann í og gegnum brúðurina. Hún veit það, af því að það var ekki kominn tími þá fyrir Hann að gera vissa hluti, sem Hann verður nú að gera. En Hann mun nú uppfylla, gegnum brúðurina, þá hluti sem Hann eftirlét þessum sérstaka tíma.

Við skulum standa eins og Jósúa og Kaleb. Okkar fyrirheitna land er í augsýn, alveg eins og þeirra var í augsýn. Jósúa þýðir Jehóvah frelsari og Hann táknar þann endatímaleiðtoga, sem koma mun til kirkjunnar, alveg eins og Páll var upprunalegur leiðtogi hennar. Kaleb táknar þann sem stóð fastur fyrir ásamt Jósúa. Mundu að Hann hafði stofnað Ísrael sem meyju með orði sínu. En þjóðin vildi eitthvað annað. Það sama er upp á teningnum með kirkjuna á endatímunum. Takið eftir, Guð studdi ekki Ísrael eða leyfði Ísrael að ganga inn í fyrirheitna landið, fyrr en á sínum eigin setta tíma. Það getur verið að fólkið hafi þrýst á Jósúa, leiðtogann, og sagt við hann: "Þetta land er okkar, förum og tökum landið. Jósúa, þú ert búinn að vera. Þú hefur ekki lengur það vald sem þú hafðir. Þú heyrðir áður fyrr frá Guði og þekktir vilja Hans og þú brást alltaf fljótt við. Eitthvað er að hjá þér." En Jósúa var spámaður, sendur af Guði, svo að Hann beið fyrir þau. Hann beið eftir staðfestri ákvörðun frá Guði. Og þegar tími kom til að hreyfa sig, þá setti Guð alla leiðsögn í hendur Jósúa, af því að hann hafði haldið sig við Orðið. Guð gat treyst Jósúa en ekki hinum. Þetta mun endurtaka sig á þessum síðustu tímum. Sama vandamálið, sami þrýstingur.

Tökum dæmi af því, sem við sjáum hjá Móse. Þessi mikli, smurði spámaður Guðs fæddist á merkilegan hátt. Hann var fæddur á réttum tíma til að leiða sæði Abrahams út úr Egyptalandi. Hann dvaldi ekki í Egyptalandi, til að rífast við menn um Ritningarnar, eða röfla yfir prestunum. Hann fór inn í eyðimörkina, þar til fólkið var reiðubúið að taka við honum. Guð kallaði Móse inn í eyðimörkina. Biðin var ekki bið vegna Móse, heldur vegna þess að fólkið var ekki reiðubúið að taka við honum. Móse hélt að fólkið myndi taka við sér, en það gerði það ekki.

Síðan er það Elía. Orð Drottins kom til hans. Þegar hann var búinn að prédika sannleikann, og mannfjöldinn, sem var fyrirrennari hins Ameríska Jesebel-mannfjölda, vildi ekki taka við Orðinu, þá kallaði Guð hann burt af akrinum og sendi plágu yfir þjóðina, fyrir að hafna spámanninum og þeim skilaboðum sem hann hafði gefið. Guð kallaði hann inn í eyðimörkina og hann vildi ekki yfirgefa hana, ekki einu sinni fyrir konunginn. Þeir, sem reyndu að sannfæra hann um að gera það, dóu. En Guð talaði til síns trúfasta spámanns gegnum sýn. Hann kom út úr leynistaðnum og kom orðinu aftur til Ísrael.

Síðan kom Jóhannes skírari, hinn trúfasti fyrirrennari Krists, hinn mikli spámaður sinna daga. Hann gekk ekki í skóla föður síns eða skóla faríseanna. Hann gekk ekki til liðs við neina kirkjudeild, en fór út í eyðimörkina, kallaður af Guði. Hann dvaldi þar, þangað til Drottinn sendi hann með boðskap, og hann hrópaði: "Messías er fyrir dyrum!"

Tökum mark á viðvörun Ritningarinnar hér. Var það ekki á dögum Móse, sem Guð hafði sannað, að Kóra reis upp og stóð gegn hinum mikla spámanni Guðs? Hann deildi við Móse og staðhæfði að hann hefði jafn mikið frá Guði til að leiða fólkið, og að allir aðrir deildu jafnt hinni Guðlegu opinberun sem Móse hafði. Hann afneitaði því valdi sem Móse hafði. Fólkið á þeim tíma, hafði heyrt heyrt hið sanna Orð og þekkti þá staðreynd að hinn sanni spámaður var staðfestur af Guði. Ég segi að þetta fólk féll fyrir Kóra og mótmælum hans. Kóra var ekki spámaður Ritningarinnar, en fjöldinn allur af fólkinu og leiðtogum þess féll fyrir honum. Áform trúboðanna í dag líkjast ekki lítið gullkálfsáformum Kóra. Þeir líta vel út í augum fólksins, eins og Kóra leit vel út á þeim tíma. Þeir hafa blóð á enni sér, olíu á höndum og eldmóð er þeir stíga í púltið. Þeir leyfa konum að prédika, leyfa konunum að klippa hár sitt, ganga í buxum og stuttbuxum, og ganga framhjá orði Guðs, vegna kreddna sinna og hefða. En það voru ekki allir sem snerust gegn Móse og yfirgáfu orð Guðs. Hinir útvöldu stóðu með honum. Það sama á sér stað í dag. Margir yfirgefa orðið, en sumir halda sér fast við það. En munið eftir dæmisögunni um hveitið og illgresið. Illgresið verður bundið saman og brennt. Falskirkjurnar eru að bindast nánari böndum, og eru að verða reiðubúnar fyrir dóm Guðs. En hveitið mun safnast saman til Herra síns.

Ég vil að þú sért ákaflega varkár hér og sjáir þetta. Guð hefur lofað að á endatímunum muni Malakí 4. kafli ganga í uppfyllingu. Það hlýtur að gera það, af því að það er Andans fyllt orð Guðs, talað af spámanninum Malakí. Jesús vitnaði í það. Það verður rétt áður en Jesús kemur í annað sinn. Þegar Jesús kemur verður öll Ritningin að hafa gengið í uppfyllingu. Ráðstöfun heiðingjanna verður á síðustu kirkjuöldinni, þegar sendiboði Malakí kemur. Hann mun halda sig fast við Orðið. Hann mun taka alla Biblíuna, frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar. Hann mun byrja á sæði höggormsins og enda á sendiboðanum á dögum haustregnsins. En kirkjudeildirnar munu hafna honum.

Hann hlýtur að koma, því að sagan endurtekur sig, frá tímum Akabs. Saga Ísraels undir Akab er að endurtaka sig hér í Ameríku, þar sem sendiboði Malakí birtist. Eins og Ísrael yfirgaf Egyptaland, til að geta tilbeðið í frelsi, aðskilin frá innfæddum, og var reist upp sem þjóð, með mikla leiðtoga, eins og Davíð o.s.frv. Síðan setti Hann Akab til valda með Jesebel á bak við hann, til að stjórna, eins höfum við gert það sama í Ameríku. Forfeður okkar komu til þessa lands, til að geta tilbeðið Guð í frelsi. Þeir ýttu innfæddum til hliðar og tóku landið til eignar. Miklir menn eins og Washington og Lincoln voru reistir upp. En áður en langt um leið komu menn sem höfðu slæma mannkosti, og skjótt var kominn Akab í forsetastólinn með Jesebel á bak við sig til að stjórna. Það er á slíkum tíma að þessi sendibði Malakí verður að koma. Síðan mun koma sýning á haustregnstímum, lík sýningunni á Karmelfjalli. Takið vel eftir þessu til að þið sjáið það í Ritningunni. Jóhannes var fyrirrennarinn sbr. Malakí 3.kafla. Hann vökvaði með vorregninu og var hafnað af stofnunum síns tíma. Jesús kom og hélt sýningu á Umbreytingarfjallinu. Hinn síðari fyrirrennari Krists mun vökva með haustregninu. Jesús verður sýningin milli kirkjudeildanna og kreddanna, af því að Hann mun snúa aftur til að standa á bak við orð sín og taka brúði sína í burthrifningunni. Fyrsta sýningin var á Karmelfjalli, sú næsta var á Umbreytingarfjallinu, og hin þriðja mun verða á Síonfjalli.

Hin undarlega hegðun Móse, Elía og Jóhannesar, sem drógu sig út úr frá fólkinu og einangruðu sig, gerði marga ringlaða. Fólkið gerði sér ekki grein fyrir að það var vegna þess að boðskap þeirra hafði verið hafnað. En sæðinu hafði verið sáð, gróðursetningunni var lokið. Næst kom dómurinn. Þeir höfðu þjónað tilgangi sínum sem tákn fyrir lýðinn, svo að dómurinn var næstur.

Ég trúi því að samkvæmt Opinberunarbókinni 13:16, verði brúðurin að hætta að prédika, af því að dýrið heimti merki á enni eða hendi, ef leyfi til að prédika verði gefið. Kirkjudeildir munu taka á sig merkið eða verða að hætta að prédika. Síðan mun lambið koma að ná í brúði sína og dæma skækjuna miklu.

Munið að Móse fæddist fyrir sérstakt verkefni, en hann gat ekki framkvæmt verkefnið, fyrr en hann hafði tekið við gjöfinni, sem gerði honum mögulegt að framkvæma verkið. Hann varð að fara út í eyðimörkina og bíða þar. Guð hafði ákveðinn tíma. Það varð að vera réttur Faraó á veldisstólnum, og fólkið varð að vera að hrópa á brauð lífsins, áður en Guð gat sent Móse tilbaka. Þetta á líka við á okkar tímum.

En hvað munum við sjá á okkar dögum? Fjöldi manna gerir tákn, meðan við höfum kynslóð manna sem leitar tákna en veit hvorki haus né sporð um Guð, eða sanna hreyfingu Anda Guðs. Ef hún sér blóð, olíu og eld, þá eru hún ánægð. Það skiptir ekki máli hvað er í Orðinu. Hún styður hvaða tákn sem er, jafnvel þau, sem ekki eru samkvæmt Ritningunni. En Guð hefur varað okkur við þessu. Hann segir í Matteusi 24, að á síðustu tímum, muni tveir andar vera að verki, og vera svo líkir, að aðeins hinir útvöldu muni geta greint á milli þeirra, af því að aðeins þeir muni ekki leiðast afvega.

Hvernig getur þú greint á milli andanna? Prófaðu þá með Orðinu. Ef þeir tala ekki samkvæmt Orðinu, þá eru þeir af hinum vonda. Eins og hinn vondi blekkti fyrstu tvær brúðirnar, eins mun hann reyna að blekkja brúði þessa síðustu tíma, með því að reyna að fá hana til að búa til kynblendinga gegnum kreddur, eða einfaldlega að snúa sér frá Orðinu til einhvers tákns sem passar henni. En Guð setti aldrei tákn ofar Orðinu. Táknin fylgja alltaf Orðinu, eins og þegar Elísa sagði konunni að baka fyrstu kökuna fyrir sig, samkvæmt Orði Drottins. Þegar hún gerði eins og Orðið sagði, þá fylgdi rétt tákn á eftir. Komið fyrst til Orðsins, og sjáið síðan kraftaverkið. Andinn gefur sæðisorðinu kraft.

Hvernig getur sendiboði sendur af Guði, aðeins trúað hluta af Orðinu og afneitað sumu af því? Sannur spámaður Guðs á síðustu tímum mun kunngera allt Orðið. Kirkjudeildir munu hata hann.Orð hans verða ef til vill eins hörð og Jóhannesar skírara, sem kallaði þá nöðrukyn. En þeir sem fyrirhugaðir eru munu heyra og verða tilbúnir í burthrifninguna. Hið konunglega sæði Abrahams, með trú Abrahams, mun halda í Orðið ásamt honum, af því að þau eru fyrirhuguð saman.

Sendiboði síðustu tíma mun birtast á settum tíma Guðs. Það eru endatímar núna, eins og allir vita, af því að Ísrael er í heimalandi sínu. Þessi sendiboði getur komið hvenær sem er samkvæmt Malakí. Þegar við sjáum hann, mun hann vera helgaður Orðinu. Það mun vera bent á hann í Orðinu (Opinberunarbókin 10:7) og Guð mun sanna þjónustu hans. Hann mun prédika sannleikann, eins og Elía og vera reiðubúinn fyrir "sýninguna" á Sínaífjalli.

Margir munu misskilja hann, af því að þeim hefur verið kennd Ritningin á vissan hátt, sem þeir líta á sem sannleikann. Þegar hann fer gegn því, munu þeir ekki trúa. Jafnvel sumir sannir Guðsþjónar munu misskilja þennan sendiboða af því að svo mikið hefur verið kallað sannleikur Guðs af þeim sem eru falskir.

En þessi spámaður mun koma, og eins og fyrirrennari fyrstu komunnar hrópaði:

"Sjá guðslambið, sem ber synd heimsins!"

Eins mun hann án efa hrópa:

"Sjá Guðslambið, sem kemur í dýrð sinni!"

    Hann mun gera þetta, vegna þess að eins og Jóhannes var boðberi sannleikans til hinna útvöldu, eins er 
     þetta síðasti sendiboðinn til hinnar útvöldu Brúðar, sem er fædd af Orðinu .

      Úr kirkjuöldunum sjö eftir William Marrion Branham.

      Birna Einarsdóttir þýddi.